PISTILL eftir Guðmund Rafn Geirdal, sjúkranuddara
Þegar ég var í nuddnámi haustið 1984, þá var eitt af skyldufögunum það sem ýmist hefur verið kallað meinafræði, sjúkdómafræði eða patólógía en hét á ensku pathology samkvæmt kennsluskrá sjúkranuddskólans en hann var staðsettur í Bandaríkjunum. Kennari var læknirinn Robert Rountree.
Eitt af þeim meinum eða sjúkdómum sem hann kenndi um, var það sem á alþjóðamáli kallast myalgia. Hann sagði að sjúkdómsheiti þetta samanstæði af tveim orðum: Annars vegar my- sem væri stytting á myo, sem aftur væri vöðvaþráður. Hins vegar -algia, sem þýddi “pain” á ensku. Það þýðir síðan verkur á íslensku.
Hann sagði að verkinn mætti framkalla með einfaldri tilraun. Sú tilraun gengi út á að hella vatni í fötu, þar til hún væri um það bil fyllt til hálfs. Þar með væri hún um fimm kíló að þyngd. Síðan að taka í hald hennar með annarri hendi og lyfta fötunni upp til annarrar hliðar, þar til handleggurinn væri í láréttri stöðu. Þá átti að halda handleggnum kyrrum, þar til verkur myndaðist.
Hann var með slíka fötu fyllta af vatni í kennslustofunni og bað um viðföng meðal okkar nemenda, til að geta framkvæmt tilraun sína. Ég var einn af um fjórum nemendum sem buðu sig fram, í um 30 nemenda hópi. Aðrir fóru á undan mér. Meðal þeirra voru konur sem ekki voru í svo mikilli þjálfun og gáfust fljótt upp. Þær héldu fötunni uppi í aðeins fáeinar sekúntur og svo lympaðist handleggur þeirra niður.
Síðan kom að mér og ég hélt fötunni út til hliðar með hægri handlegg og gætti þess að vera eins kyrr og auðið væri. Mér að óvörum var læknirinn það vel undirbúinn, að hann var með það sem á ensku heitir “stopwatch” til tímatöku. Það heitir skeiðklukka á íslensku.
Ég þekkti skeiðklukku vel sem mælitæki í bæði hlaupakeppnum og eðlisfræði tilraunum. Eftir drykklanga stund fann ég hvernig nokkuð ört vaxandi sviði óx í axlarvöðvanum, þar til hann varð að óþolandi sviðaverk og handleggurinn gaf smám saman eftir. Reyndist ég hafa slegið met að sögn læknisins með því að halda handlegg útréttum í rúmar þrjár mínútur.
Það sem kom mér á óvart var hve líkur verkurinn var óþægindum sem ég hafði verið með í herðum milli háls og vinstri axlar um árabil. Að hluta var hann nákvæmlega eins. Þetta var verkur sem ég hafði óvænt losnað við vorið á undan meinafræði kúrsi þessum, við það eitt að vera stöðugt að fá á mig æfingar samnemenda minna í nuddtækni.
Læknirinn horfði beint í augu mér rannsakandi, eftir að ég settist niður og var að átta mig á tengslunum við verkinn sem ég hafði gengið með svo lengi. Virtist hann nota mitt dæmi sem aðaldæmið meðal viðfanga.
Læknirinn sagði: Einstaklingurinn sem upplifir verkinn er einn til frásagnar. Við hin vitum ekki hvað hann upplifir. Á meðan hann er sér meðvitaður um að hann sé með verk, þá héti það fyrirbrigði “perceived pain”. Síðan þegar einstaklingurinn tjái sig um verkinn, þá sé það kallað “expressed pain”. Við töku á sjúkrasögu við skoðun sjúklings, þá gætum við heilbrigðisstarfsfólk bara byggt á hinum tjáða verk en ekki hinum skynjaða verk.
Síðan væri það okkar að beita þeirri “palpation” tækni, þreifingar tækni, sem okkur hefði verið kennd í kúrsinum “anatomy clinical”, klínískri anatómíu; til að finna hvort vöðvi væri stífur á sama stað og sjúklingurinn hefði tjáð sig um verk. Ef tjáður verkur reyndist vera á sama stað og við finndum stífni, þá væri slíkt myalgia. Við mættum greina sjúkdóminn myalgia.
Læknirinn taldi orsök myalgia vera fyrirbrigðið “ischemia”. Það fælist í súrefnisskorti í blóði sem rynni í vöðvann. Það væri þessi súrefnisskortur sem ylli verknum. Súrefnisskorturinn væri vegna þess að við það að vinna, þá þurfi vöðvinn meira súrefni. Þegar hann þurfi meira súrefni en blóðið nær að bera til vöðvans, þá fari súrefnið að skorta. Hann sagði að þessi vinna vöðvans færi fram í samdráttareiningu innan hans sem héti sarcomere. Innan hennar væru síðan próteinin actín og mýósín. Þegar þau dragist saman, þá brenni þau súrefni.
Læknirinn hélt áfram og talaði um að myalgia gæti verið að myndast í um fimm þrepum. Það sem ég man um þau var á eftirfarandi nótum: Við tilraunina sem fólst í að halda á vatnsfötu, myndaðist samdráttur í sarcomere einingunni. Þar með brenni hún meira súrefni. Þegar súrefnið brenni upp hraðar en aðflutningur blóðs, þá myndast ástand kallað ischemia og þá byrjar sarcomere að gefa boð til nærliggjandi enda sársaukataugar. Þessi taugaendi skyntaugar fyrir sársauka virkjast og gefur frá sér boð sem berst til heila og innan hans í sérstakt svæði í heilaberkinum sem ætlað er fyrir öll boð skyntauga. Sé boðið nógu sterkt, þá berst það til svæðis sem er aðeins framar í heilaberkinum. Það svæði sé eins konar símaskiptiborð, svipað og í stórri stofnun þar sem símadama velji úr innkomnum hringingum. Nái sársaukaboð þetta að yfirgnæfa öll önnur boð sem eru á leið til hins meðvitaða framheila, þá berst það eitt í gegn. Þar með sé það komið inn í framheilann og í framheilanum eigi sér stað meðvitund. Það sé þarna sem viðkomandi einstaklingur geri sér grein fyrir, verði sér meðvitaður um, að hann sé kominn með verk í vöðva, sem læknar kalli myalgia.
Læknirinn sagði jafnframt: Hins vegar er til annar sjúkdómur í vöðvum. Sá heiti “myositis”. Fyrri partur hugtaksins sé með sama orði og áður eða myo-, vöðvaþráð. Seinni parturinn, -itis, þýði bólga. Hér væri um að ræða sjúkdóm sem ylli bólgu í vöðvum og bólguna mætti greina með sérstakri greiningartækni. Sá greiningar ferill væri aðeins á færi lækna. Einungis læknar mættu greina myositis. Myositis gæti leitt til þess að fólk missti starfsgetu að hluta og jafnvel fullu og yrðu þar með öryrkjar.
Ég lærði þetta sennilega betur en samnemendur mínir, því ég hafði óskað eftir og fengið leyfi skólayfirvalda, til að bæði fá að sitja í endurtekinni kennslu læknisins og að taka fyrirlestra hans upp á segulbandsspólur en þær hlustaði ég oftsinnis á. Greiptust þessi orð hans mér í sinni.
Við upprifjunina rúmum 35 árum síðar, þá man ég sumt líkt og gerst hefði í gær. Mest man ég þegar það rann upp fyrir mér að verkurinn sem myndaðist í lokin við að halda á vatnsfötunni, var svo gott sem sá sami og ég hafði upplifað svo sterkt frá haustinu 1979 og til vorsins 1984 eða í rúm 4 ár. Næst mest að læknirinn horfði þráðbeint í augu mér á meðan ég var að gera mér grein fyrir samhenginu.
Eftir brautskráningu vorið 1985 þá hóf ég störf við nudd hérlendis. Tók ég eftir að læknar rituðu greinar um sjúkdóminn vöðvagigt. Sögðu þeir þessa gigt í vöðva einkennast af tvennu: Annars vegar stífum vöðva og hins vegar verk, sviða, sársauka, særindum eða þrautum. Einkum tók ég eftir grein eftir Ingólf Sveinsson lækni, sem hét hreinlega Vöðvagigt. Var hún upphaflega birt í tímariti gigtarfélagsins í kringum árið 1980. Árið 1985 var hún auk þess birt í sérprenti, vegna mikils áhuga lesenda. Las ég hana margsinnis.
Smám saman rann upp fyrir mér að vöðvagigt hlyti að vera hið sama og læknirinn í meinafræði hafði kallað myalgia. Hins vegar tók mig mörg ár að pússla þessum upplýsingum saman, þar til þær mynduðu nægilega góða heildarmynd.
Á árabilinu 1990-1992 var ég í tíðum samskiptum við gigtarlækni sem heitir Júlíus Valsson. Fyrst var það vegna þess að hann vildi gera tilraun með að senda til mín sjúklinga sem höfðu greinst með hálshnykk (whiplash) á hæsta stigi og kanna árangur. Svo var það í tengslum við fyrirlestra sem hann hélt við nuddskóla sem ég hafði stofnað árið 1989. Síðan vegna þess að hann aðstoðaði mig við ráðningu fyrirlesara í meinafræði vorið 1992. Í raun hafði hann boðið fram að hafa yfirumsjón með öllum bóklegum greinum námsvetrarins 1991-1992 en ég var sennilega of kurteis til að taka svo góðu boði.
Í tengslum við þetta mynduðust rík samskipti við hann og þá barst í tal að það sem læknar kölluðu vöðvagigt, kallaði almenningur vöðvabólgu. Amaðist gigtarlæknirinn ekki við því þó almenningur notaði þetta orð.
Hins vegar var hann mikið að velta fyrir sér orsakasamhengi vöðvagigtar. Þegar ég sagði honum að læknirinn sem hefði kennt mér meinafræði hefði rakið vöðvagigt til ischemia, þá taldi gigtarlæknirinn að hugtakið ischemia væri of sterkt orð; því það ætti við um blóðþurrð, svo sem til heila.
Svo fræddi hann mig um að orðið bólga í sinni hreinustu mynd fæli í sér fjögur einkenni: roða, hita, þykkildi og gröft. Til að leggja áherslu á þetta, þá þuldi hann runu af þessum fjórum orðum á latínu. Man ég enn að þulan hófst á dolor rodor. Voru þetta nákvæmlega fjögur latnesk orð, hvorki meira né minna.
Hann sagði að þegar vöðvagigt yrði verst, þá myndaðist í vöðva svokallaður “trigger” punktur. Tekin hefðu verið vefjasýni og í ljós hefði komið óregluleg uppbygging bandvefjar og í meira magni en ætti að vera innan um vöðvaþræði. Þá hefði hann séð á röntgenmynd hvernig slæða úr kalki hefði sest í slíkan vöðva. Hann hefði þá teygt þennan kalkaða vöðva sjúklings í reglulegum heimsóknum yfir um hálfs árs bil og látið taka röntgenmynd að nýju og þá hefði kalk slæðan verið horfin og vöðvinn orðinn nothæfur að nýju.
Hann hafði hins vegar mikinn áhuga á líku hugtaki og vöðvagigt en það væri vefjagigt. Vefjagigt héti á alþjóðamáli lækna fibromyalgia. Hægt væri að þýða fibromy- partinn sem bandvefs- og vöðvaþráða-. Þá þýddi -algia hið sama og verkur. Þegar þetta kæmi saman, þá væri bein þýðing bandvefs- og vöðvaþráðaverkur. Þetta væri hins vegar of langt og stirt orð. Því hefði hugtakið vefjagigt orðið fyrir valinu. Einhverju síðar sýndi hann mér svo grein sem hann hefði fengið birtingu á í gigtarblaðinu um vefjagigt.
Einnig sýndi hann mér töflu sem hann hafði útbúið, til að bera saman einkenni vöðvagigtar og vefjagigtar. Voru þessi tvö hugtök hlið við hlið á toppi töflunnar en síðan voru einkennin í runu niður vinstri hlið töflunnar frá lesandanum séð. Ég man að þegar ég svo las töfluna í rólegheitum, þá voru þessi skil á milli skyldra sjúkdóma mjög skýr.
Aðrir læknar sem ég ræddi við, mest í tengslum við það tilefni að þeir héldu fyrirlestra við nuddskóla minn, töldu að þar sem vöðvagigt einkenndist af því að vöðvi væri bæði stífur og sjúklingurinn upplifði þrautir; þá væri gigt rétta orðið, því gigt einkenndist af bæði stirðleika og þrautum. Vöðvagigt væri því gigtarsjúkdómur og ætti því að falla undir gigtarlækna.
Einnig sögðu læknarnir að ekki ætti að tala um vöðvagigt sem vöðvabólgu. Ástæðan væri sú að bólga einkenndist af roða, hita, þykkildi og greftri, sem var hið sama og Júlíus gigtarlæknir hafði sagt mér en bættu þó við eftirfarandi: Í fyrsta lagi að ekkert af þessum fjórum einkennum bólgu giltu um vöðvagigt. Í öðru lagi að bólga í sinni skýrustu mynd væri graftarkýli: Það væri rautt að lit, það mætti finna með þreifingu að það væri heitara en skinnið í grennd, þykkildið stefndi út á við og væri auk þess harðara en skinnið í grennd og gröfturinn birtist sem hvítur graftarnabbi á toppi þess. Í þriðja lagi endaði fagheiti um bólgu á itis en fagheitið um vöðvagigt væri ekki með þá endingu.
Frá árinu 2004 hef ég starfað sem sjúkranuddari á sjúkraþjálfunarstofu. Hef ég þá margsinnis séð gögn frá læknum þar sem sama hugtak hefur komið fram og meinafræði læknirinn Robert Rountree hafði nafngreint: Myalgia. Jafnframt hef ég séð í megintexta innan sömu skjala, að læknar hafa þá ritað hugtakið vöðvagigt.
Þar sem svo vel vildi til að alþjóðlegt flokkunarkerfi sjúkdóma, sem skammstafað er ICD-10; hafði oft verið notað á slíkum skjölum frá læknum, þá kom fram að myalgia bæri flokkunarnúmer. Mig minnir að það númer sé M79.1. Ég hafði þá tekið eftir að landlæknir hafði þýtt hin alþjóðlegu heiti sjúkdóma á íslensku. Ég ákvað að nýta mér það og viti menn: Myalgia var ekki þýtt sem vöðvagigt, líkt og ég bjóst við, heldur vöðvahvot.
Rifjaðist þá upp fyrir mér, varðandi endinguna -hvot; að ég hafði séð sjúkdómsheitið vangahvot í bókinni Heimilislæknirinn, sem var þýdd, endursögð og útgefin árið 1987. Ég las því aftur um þann sjúkdóm og þá rann upp fyrir mér að ég hafði séð sömu eða sambærilega lýsingu á sjúkdómi sem á alþjóðamáli heitir trigeminal neuralgia. Varð ég nægilega sannfærður um, að um einn og sama sjúkdóm væri að ræða. Seinni hluti alþjóðaheitisins, neuralgia, er tenging á orðstofninum neur- og orðinu algia. Þarna var þá aftur kominn endirinn -algia, líkt og í myalgia.
Mér virtist því vera sem landlæknir hefði ákveðið að þýða algia sem hvot. Strangt til tekið, þá minnir mig að þýðingunni hafi verið lokið árið 1996. Þýðendurnir hafi verið tveir: Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir á þeim tíma og Örn Bjarnason læknir, sem bæði hafði verið í þýðingarnefnd læknafélanna og einn af ráðgjöfum Ólafs Ólafssonar, landlæknis.
Þá rifjaðist upp fyrir mér samtal við Örn Bjarnason lækni á árabilinu 2004-2011 en þá var hann að stunda rannsóknir á sögu læknisfræðinnar hérlendis. Hann hafði sagt mér að hann hefði viljað finna eitt íslenskt orð fyrir sérhvern erlendan orðstofn innan alþjóðaheitis yfir sjúkdóma.
Ég ákvað þá að fletta upp í íslenskri orðabók sem gefin var út upp úr aldamótum af bókaútgáfunni Eddu. Þar var orðið hvot að finna. Það þýddi, eftir því sem ég man best: Sársauki og stingur í senn.
Einnig man ég þær hugleiðingar sem við tóku en þær vörðuðu einkum að áður hafði -algia parturinn í neuralgia verið þýddur sem -pína innan hugtaksins taugapína. Þetta tengdi hugsanir mínar við hið framangreinda alþjóðaheiti á vangahvot, trigeminal neuralgia. Þar sem fyrri partur orðsins neuralgia, neur- er stytting á neuro sem merkir tauga-, þá er nokkuð ljóst að í þann ganginn þýddi endirinn -algia hið sama og pína.
Þar með gerði ég mér grein fyrir að þýðandi hefði allt eins getað sagt sem svo, að þar sem neuralgia hafði á einhverjum tímapunkti verið þýdd sem taugapína, þá hefði allt eins mátt þýða trigeminal neuralgia sem vangapína og myalgia sem vöðvapína.
Þarna var ég staddur í kringum árið 2013 eða svo, í að reyna að fóta mig innan um öll þessi tilbrigði á hvernig ætti eða mætti þýða hið upphaflega hugtak sem ég lærði um í meinafræði haustið 1984 hjá lækninum Robert Rountree: Myalgia.
Það var ekki fyrr en ég sá nokkur skjöl í röð eftir lækna á árabilinu 2004-2013, að M79.1 og Myalgia og síðan ýmist hugtökin vöðvagigt, vöðvabólga og að lokum vöðvahvot; eru samheiti yfir alþjóðaheitið myalgia. Svo ég orði það skýrar: Alþjóðlega sjúkdómaheitið myalgia hefur verið þýtt með þrem hugtökum á íslensku: Vöðvagigt, vöðvabólga og vöðvahvot.
Þannig var staða mála allt til í fyrra eða hittifyrra en á árabilinu 2018-2019 var mér sýnd grein eftir tvo sjúkraþjálfara, sem birtist í tímariti á vegum heilbrigðisþjónustunnar. Annar þeirra man ég að heitir Gunnar Svanbergsson en þann sjúkraþjálfara þekkti ég eftir að hafa starfað með honum á tímabili. Mig minnir hreinlega að heiti greinarinnar hafi verið: Vöðvabólga er ekki bólga. Innan greinarinnar var síðan tiltekið með álíka skýrum hætti og ég hafði áður tekið eftir frá læknum: Það er engin bólga í vöðvabólgu.
Ég hef oft velt því fyrir mér hver nákvæmlega kom upp með hugtakið vöðvabólgu, því það stenst ekki nánari skoðun. Hins vegar er alveg dagljóst að þetta er það hugtak sem almenningur tengir helst við blönduna af stífum, spenntum eða stirðum líkamsparti milli skinns og beins annars vegar og hins vegar upplifun um leið á verk, sársauka, særindum, eymslum, þrautum eða pínu frá sama svæði.
Ég er þannig menntaður að ég á að temja mér að lesa texta eftir lækni og/eða þar sem læknir er ritstjóri og/eða þar sem vitnað er í lækni og/eða þar sem maður heyrir lækni segja eitthvað um faglegt efni í munnlegri framsögn. Byggt á þessu öllu, þá á ég að kalla myalgia vöðvagigt á íslensku og alls ekki vöðvabólgu, nema þá aðeins að taka fram að gigtarlæknirinn Júlíus Valsson sé samt ekki á móti því að almenningur kalli þetta vöðvabólgu.
Í starfi mínu sem sjúkranuddari, þá tek ég á móti sjúklingum og fjölmargir kalla þessa blöndu af spennu og verk í vöðva vöðvabólgu. Ég hef meðtekið þá orðnotkun af virðingu minni fyrir Júlíusi Valssyni, sem veitti mér mikla innsýn í sjúkdómana hálshnykk, vöðvagigt og vefjagigt.
Sem löggiltur sjúkranuddari og þar með heilbrigðisstarfsmaður sem heyri undir heilbrigðisyfirvöld, þá laga ég mig að afstöðu þeirra, þegar ég fæ vitneskju um hana. Því væri ekki úr lagi að vitna beint í íslenzka orðabók frá árinu 1963, þar sem Árni Böðvarsson var ritstjóri og útgefandi bókaútgáfa menningarsjóðs: “hvot, … hvotverkur …. hvotingur, … sársaukastingir …. hvot/sótt … veirusjúkdómur með sársauka í vöðvum (myalgia epidemica). -verkur … kippandi sársauki, stingur” (bls. 293).
- Lokaorð mín eru þau að sjúkdómurinn myalgia sem læknirinn Robert Rountree fræddi mig svo ríkulega um í meinafræði kúrs haustið 1984, hefur af íslenskum læknum verið kallaður vöðvagigt, af íslenskum almenningi vöðvabólga og íslenskum heilbrigðisyfirvöldum vöðvahvot. Þegar sjúklingur tjáir sig um verk í vöðva og sjúkranuddari beitir faglegri þreifingu og finnur að hinn sami vöðvi er stífur, þá kallast það ástand í viðkomandi vöðva myalgia/ vöðvagigt/ vöðvabólga/ vöðvahvot.
- Svar mitt við spurningunni í titli pistils þessa, HVAÐ ER VÖÐVABÓLGA, er því eftirfarandi: Vöðvabólga er samheiti við það sem læknar kalla vöðvagigt, heilbrigðisyfirvöld vöðvahvot og ber alþjóðaheitið myalgia. Hún er greind með mati þar til bærs heilbrigðisstarfsmanns á starfsstofu hans við klínískar aðstæður. Hið klíníska mat er annars vegar með þreifingu hans, þar sem niðurstaðan er stífur vöðvi. Hins vegar með tiltekinni samskiptatækni um að tjáning sjúklings um verk sé hægt að staðsetja á sama stað og þar sem stífur vöðvi er. Séu báðir þessir þættir til staðar, þá er greiningin vöðvabólga með orðnotkun almennings en með hugtakanotkun heilbrigðisstarfsmanna: Vöðvagigt, vöðvahvot, myalgia.
Ritun ásamt leiðréttingum lokið klukkan 19:14 mánudaginn 8. mars 2020
GRG/- – –