Vöðvagigt mynd

Greinin um vöðvagigt eftir Ingólf Sveinsson lækni

Pistill númer 2
eftir Guðmund Rafn Geirdal,
sjúkranuddara

Ritun hefst fimmtudaginn 12. mars 2020 klukkan 20:35

Í pistli mínum Hvað er vöðvabólga, þá sagði ég eftirfarandi um grein um vöðvagigt eftir Ingólf Sveinsson, lækni: “Einkum tók ég eftir grein eftir Ingólf Sveinsson lækni, sem hét hreinlega Vöðvagigt. Var hún upphaflega birt í tímariti gigtarfélagsins í kringum árið 1980. Árið 1985 var hún auk þess birt í sérprenti, vegna mikils áhuga lesenda. Las ég hana margsinnis“.

Í gær bað ég leitarvélina google um niðurstöður varðandi eftirfarandi leitarorðarunu: Ingólfur Sveinsson vöðva. Kom þá í ljós niðurstaða sem sagði um hvað Ingólfur Sveinsson geðlæknir hefði gert í grein í tímaritinu Hjartavernd.

Þetta rifjaði upp fyrir mér að það var hið rétta tímarit en ekki í tímarit á vegum gigtarfélagsins. Mér fannst mikilvægt að leiðrétta þetta og opnaði því niðurstöðuna. Þá birtust blaðsíður úr grein eftir annan lækni. Sá læknir, Helgi Guðbergsson, segir um Ingólf: “… hefur Ingólfur Sveinsson geðlæknir gert í ágætri grein í tímaritinu Hjartavernd árið 1979. … í greininni sem nefnist “Vöðvagigt, sjúkdómur eða sjálfskaparvíti?” (heimild nr. 1).

Til að bera þetta saman, þá kallaði ég Ingólf lækni og það er áfram rétt, því síðar í tíma bætti hann svo við sig sérfræðigreininni geðlækningum og varð þar með geðlæknir, eins og Helgi tekur fram. Ég sagði að greinin hefði heitið Vöðvagigt og það er áfram rétt, nema hún hét síðan meira, eins og Helgi vitnar í. Ég sagði að grein Ingólfs hefði birst í tímariti og það er hið sama sem Helgi ritar. Ég ritaði að það hefði verið í tímariti gigtarfélagsins en Helgi ritar hið rétta: Greinin birtist í tímariti Hjartaverndar. Mig grunar að þarna hafi slegið saman í minni mér grein eftir Júlíus Valsson gigtarlækni um vefjagigt en hún birtist í tímariti á vegum Gigtarfélags Íslands.

Ég sagði síðan að grein Ingólfs hefði birst kringum 1980 og þarna líkar mér orðavalið, því Helgi segir greinina hafa birst árið 1979. Það sem ég ritaði merkir, þegar það er talið í árum aftur á bak, að hún hefði birst fyrir 40 árum en Helgi nefnir ártal fyrir 41 ári. Skekkja minnis míns var aðeins um tvö og hálft prósent og alveg innan fyrirvarans um að greinin hafi birst í kringum árið 1980, sem gæti verið túlkað sem sirka tvö til fimm ár plús mínus 1980.

Þar með er ég búinn að færa til betra horfs upplýsingar mínar. Þetta var ágætis sjálfspróf. Þetta er einnig gott fyrir lesandann, til að meta hversu vel ég man. Einnig til að sjá hvernig ég leiðrétti sjálfan mig, í ljósi betri vitneskju.

Heimildin kemur fram hér að aftan/ neðan. Ég vil bæta við að ég las grein eftir Helga Guðbergsson lækni á þessu árabili. Mig minnti að hún hefði birst í Morgunblaðinu nánar tiltekið á árabilinu 1989-1992. Það gæti áfram verið rétt og að Morgunblaðsgreinin hafi verið rituð í kjölfarið á þeirri sem ég vitnaði í. Ég hitti Helga að máli á skrifstofu hans innan Heilsuverndar Reykjavíkur í kringum 1990 til vorsins 1992. Sennilega hefur það verið í tengslum við það að hann hélt fyrirlestur við nuddskóla minn.

Í lok þeirrar greinar sem ég vitna til innan vefslóðarinnar, þá segir eftirfarandi um Helga: “Helgi Guðbergsson læknir er sérfræðingur í atvinnusjúkdómum. Hann er yfirlæknir atvinnusjúkdómadeildar Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur”. Ég myndi vilja nýta þessa vefslóð síðar í tíma, varðandi innihald þessarar greinar eftir hann sem ég hef vitnað í hér að framan.


Heimild:
Nr. 1 timarit.is/page/5047737#page/n13/mode/2up


Ritun lokið þann 12.3.2020 kl. 21:07.
Yfirlestri lokið kl. 21:27.


GRG/ – – –

Skildu eftir svar