Nudd, nuddmeðferð og sjúkranudd

Frá því ég vissi fyrst um nudd sumarið 1982, þá hefur enska orðið “massage” ávallt verið þýtt sem nudd og aldrei neitt annað.

Þeir sem starfa við nudd, alveg frá því að vera ómenntaðir, yfir í þá sem eru útlærðir af nuddstofum af öðrum nuddurum, eru almennt kallaðir á ensku “masseur” ef þeir eru karlkyns. Starfsheitið “masseur” er semsagt einfaldlega þýtt sem nuddari. Síðan ef um er að ræða konu sem starfar við nudd, þá er hún í hinum enskumælandi heimi kölluð “masseuse”. Starfsheitið “masseuse” er þá sennilega hið sama og það sem hér á landi hefur verið kallað nuddkona.

Aftur á móti eru þeir sem eru útlærðir í formlegu nuddnámi úr nuddskóla, sem getur verið jafngilt um hálfu námsári í dagnámi eða meira og brautskrást með diplóma, kallaðir “massage therapist”.  Hugtakinu “therapist” er þá bætt við, til að marka þann skilning að viðkomandi “masseur” og/eða “masseuse”, hafi lokið námi í skóla, sé skólagengin. Með þessu útskriftarheiti/ brautskráningarheiti, er ekki lengur hægt að sjá muninn á hvort karl eða kona sé útlærð, heldur er sama starfsheiti notað um bæði kynin.

Í gegnum tíð og tíma og eftir því hver talar og í hvaða samhengi, þá hefur það útskriftarheiti fengið á sig mismunandi þýðingar. Eins og sést í rakningu minni á menntunar- og starfsferli mínum, þá kallaði ég Joseph Meyer “massage therapist”, nudd þerapista. Það er út af því í hvaða sambandi ég og meðráðandi minn í Miðstöð mannlegra möguleika, vorum að ráða hann til starfa. Við vorum að ráða hann inn í vetrarnám í sjálfsrækt (personal growth) innan um aðra útlærða leiðbeinendur, sem voru geðlæknir (psychiatrist), sálfræðingur (psychologist) og sálfræði terapistar (psychotherapist).

Síðan þegar ég brautskráðist úr nuddnámi á háskólastigi vorið 1985 í Bandaríkjunum, þá þýddi ég “therapist” sem fræðingur, því ég taldi mig hafa numið ákveðin fræði.

Vilhjálmur Ingi Árnason stjórnarmeðlimur í Sjúkranuddarafélagi Íslands, var lærður í Kanada og það kæmi mér ekki á óvart ef hans brautskráningarheiti hafi einnig verið “massage therapist”. Hann gaf þá skýringu við ákveðið tækifæri á tímabilinu 1983-1990, að hann og/eða þau sem með honum voru í stjórn þess félags; hafi viljað setja hugtakið sjúkra fyrir framan nuddari, til að aðgreina sig frá ómenntuðum nuddurum, óskólagengnum, ófaglærðum. Þau hefði sótt hugtakið sjúkra til sjúkraþjálfara, enda væri hægt að bera þær stéttir saman.

Sögunni er ekki lokið, því á vormánuðum 1991, þegar ég var að fara yfir hvort nuddfræðingur væri besta útskriftarheitið fyrir mína nemendur, þá fór ég í menntamálaráðuneytið og ræddi þar við Gerði Árnadóttur. Hún sá um að fara yfir hugtök og samræma fyrir menntamálaráðherra. Hún var alveg ákveðin í að fræðingur ætti bara að vera fyrir þá sem hefðu lokið háskólanámi og helst bara bóklegu og í það minnsta BA gráðu. Hins vegar ætti tæknir að vera í starfsheitum sem væru á framhaldsskólastigi.

Vandinn var hins vegar sá að ég hafði ritað í námslýsingu fyrir fyrstu nemendahópana sem ég kenndi, að útskriftarheiti væri nuddfræðingur. Ég lagði ekki í að bakka, þannig að það varð þar með starfsheiti þeirra sem ég útskrifaði fyrst, sem var í maí 1991. Sú venja hélst þar eftir.

Varðandi mig sem útlærðan “massage therapist”, að þrátt fyrir að ég hefði fyrstu árin í starfi hérlendis haldið mig við eigin þýðingu og kallað mig nuddfræðing, þá leiddi leyfi heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra mér til handa til að kalla mig sjúkranuddari, til þess að það það hugtak varð ofan á. Þar af leiðandi stofnaði ég eðlilega sjúkranuddstofu árið 1990.

Þegar ég var staddur á skrifstofu Guðjóns Magnússonar aðstoðarlandlæknis innan Landlæknisembættisins haustið 1989, þá sagði Guðjón við að tækifæri; að þegar fólk kæmi inn af götunni til sjúkranuddara og hann nuddaði það, þá kallist slíkt nudd (eða nuddmeðferð). Hins vegar breyttist nudd í sjúkranudd samkvæmt ákvörðun og tilvísun læknis.

Þegar læknar hafa vísað til mín sjúklingi skriflega, þá hefur verið algengast að þeir hafi gert það með því að gefa út skriflega læknistilvísun. Fyrst tiltaka þeir nafn og kennitölu sjúklings. Síðan tók  við lýsing og hún var gjarnan með stöðluðu orðalagi: Viðkomandi þarf á sjúkranuddi að halda.

Eftir breytingu úr söluskatti í virðisaukaskatt árið 1990, þá var nudd virðisaukaskattskylt en sjúkranudd ekki. Því var ákvörðun læknis um að gefa út læknistilvísun á sjúkranudd, oft gerð til að viðkomandi sjúklingur hans fengi virðisaukaskattinn niðurfelldan.

Árið 1995 eða þar í grennd ákváðu skattayfirvöld að nóg væri að viðkomandi starfsmaður væri sjúkranuddari og þá var allt starf sjúkranuddara undanþegið virðisaukaskatti. Þetta fékk ég síðan skriflega staðfest hjá ríkisskattstjóra, fljótlega upp úr því að ég undirritaði samning við Sjúkraþjálfun Reykjavíkur árið 2004.

Reglugerð númer 204/1987, sem var grundvöllur leyfis míns sem sjúkranuddari árið 1987, var brottfelld og við tók reglugerð númer 1128/2012 um sjúkranuddara. Í 5. grein segir í 4. málsgrein: “Sjúkranuddari ber ábyrgð á þeirri meðferð sem hann veitir.”

Takið eftir að ekki segir nudd, nuddmeðferð eða sjúkranudd, heldur einungis meðferð (therapy). Þetta er til marks um að sjúkranuddari lærir fleira en bara nudd í námi sínu. Í mínu námi var til dæmis kúrs í vatnsmeðferð (hydrotherapy). Innan þess kúrs var fjallað um um hvernig mátti nota gufubað, sauna, heita potta, kalda potta, leirbakstra og notkun á vatnsslöngum til að sprauta líkama sjúklinga. Einnig var okkur kennt að liðka liðamót sjúklinga, semsagt framkvæma liðkun á liðamótum á meðan sjúklingur lá á meðferðarbekk. Að lokum var okkur uppálagt að fræða sjúklinga.

Samantekið, þá veitir sjúkranuddari þjónustu sem kallast á almennu máli nudd en er vegna fagnáms þeirra kallað nuddmeðferð eða einfaldlega sú meðferð sem sjúkranuddari veitir.

Þegar læknir vísar sjúklingi til sjúkranuddara, þá er hefðin sú að hann tekur fram að viðkomandi sé í þörf fyrir sjúkranudd. Á fyrstu árunum eftir að virðisaukaskattur tók gildi árið 1990, féll virðisaukaskattur niður gegn læknistilvísun um sjúkranudd. Um fimm til fimmtán árum síðar ákváðu skattayfirvöld að ekki væri virðisaukaskattur lengur á neinni meðferð sem sjúkranuddari veitti. Fækkaði þá læknistilvísunum til samræmis, þar til þær voru orðnar fátíðar upp úr því, alltént hvað mig varðar.