Guðmundur Rafn Geirdal, löggiltur sjúkranuddari og eigandi Sjúkranuddari.is

Sendu mér tölvupóst

Guðmundur Rafn Geirdal,
sjúkranuddari

Sumarið 1982 heimsótti ég bókabúð í Stokkhólmi í Svíþjóð sem sérhæfði sig í mannrækt (personal growth). Þar sá ég upplýsingar á prenti eftir Bandarískan nudd þerapista (massage therapist) sem væri að bjóða upp á síð-Reichíska nuddmeðferð (neo-Reichian massage therapy) og námskeið í tengslum við það.

Ég tók þessar upplýsingar, ásamt fleirum sem ég aflaði mér, með mér til Íslands. Aðili sem ég hafði stofnað fyrirtæki með þá um haustið en fyrirtækið hét Miðstöð mannlegra möguleika, tók eftir upplýsingum mínum um þennan þerapista og vildi að þerapista þessum yrði boðið til landsins. Ástæðan væri sú að þarna væri ein útfærslan á kenningum læknisins Wilhelm Reich meðal eftirmanna þessa Reich. Aðili þessi heitir Guðmundur S. Jónasson og var vel að sér í þessum kenningum.

Þerapistinn mætti svo til okkar í miðstöðina og hélt tvö helgarnámskeið sem lið í vetrarnámi í sjálfsrækt. Á milli þessara helgarnámskeiða var hann með þessa sérstöku nuddmeðferð fyrir staka kúnna.

Heimsóknin tókst vel og þerapistinn kom því aftur vorið 1983 og vildi þá halda sex vikna nuddnámskeið í sænsku nuddi (Swedish massage) sem lyki með diplóma. Skipulagði ég það alfarið og fékk að leigja nuddstofuna í kjallara Hótel Sögu til þess. Tók ég þátt í námskeiðinu og fékk viðurkenningarskjal því til staðfestingar.

Nuddþerapistinn, sem heitir Joseph Meyer, sagði mér að ég hefði nudd hæfileika. Í raun það mikla að hann hefði hreinlega af eigin sjálfdæmi sent skrifleg meðmæli mér til handa til nuddskólans sem hann var brautskráður frá í Bandaríkjunum. Hann sagði mér ekki frá þessari sendingu fyrr en eftir á.

Ég hugsaði þá mitt ráð og ályktaði sem svo, að þar sem meðmælabréfið gæti verið lesið af skólayfirvöldum þarlendis; þá myndi passa betur að umsókn frá mér myndi fylgja fljótlega í kjölfarið, svo stjórn skólans gætu þá borið þessi tvö skjöl saman. Því leit ég þannig á að ekki væri annað í stöðunni en að fylla út umsókn.

Ég fyllti því út umsókn og lét fylgja með staðfestingu á stúdentsprófi mínu. Síðan tók við umsóknarferill í um tvo mánuði. Skólayfirvöld nuddskólans voru mjög upptekin af því að tryggja að stúdentspróf mitt hér á Íslandi við 20 ára aldur, væri jafngilt brautskráningu innan Bandaríkjanna úr “high school” við 18 ára aldur, því nuddskólinn væri á háskólastigi (college level). Þegar þau voru orðin sannfærð um að svo væri, þá var ég samþykktur inn sem nemandi í nuddnám. Það ætti að hefjast í janúar 1984.

Nuddskólinn hét á þarlendu máli “Boulder School of Massage Therapy.” Það mætti snara heiti hans sem Nuddmeðferðarskóli Boulder. Mig minnir að samþykktin um inngöngu hafi legið fyrir í ágúst 1983.

Ég átti síðan samtöl við menntamálaráðherra, landlækni, aðstoðarlandlækni, stjórnarmeðlim í Sjúkranuddarafélagi Íslands og stjórnarmeðlim í Lánasjóði íslenskra námsmanna. Stjórn lánasjóðsins ákvað að veita mér námslán. Ólafur Ólafsson landlæknir gekk ákveðið fram og sendi bréf með faxi til Bandaríkjanna, til að fá staðfest að læknir innan nuddnámsins sem kenndi meinafræði, væri samþykktur af landlækni Bandaríkjanna. Svo reyndist vera og meira til. Landlæknir gaf því samþykki sitt. Stjórnarmeðlimur félags sjúkranuddara veitti vilyrði fyrir að samþykkja mig í félagið að brautskráningu lokinni.

Ég fór til Bandaríkjanna, Kolóradó fylkis og innan þess háskólabæjarins Boulder en hann er norðvestur af borginni Denver. Skólinn dregur nafn sitt af þessum bæ. Þar hófst námið á fyrstu dögum janúar 1984. Námið var fjórar annir og kennt var yfir sumarið og því metið til jafns við tveggja ára nám. Ég brautskráðist frá skólanum með diplóma dagsettu 19. apríl 1985. Útskriftarheiti var á ensku “certified massage therapist”. Í þeim samtíma snaraði ég útskriftarheitinu á íslensku sem viðurkenndur nuddfræðingur.

Ég kom til baka til Íslands í júlí 1985. Ég sótti svo um inngöngu í Sjúkranuddarafélag Íslands, að mig minnir í ágúst það ár. Það gerði ég með því að heimsækja Hilke Hubert sjúkranuddara á sjúkranuddstofu hennar á Hverfisgötu í Reykjavík og fylla út umsóknina þar.

Í október 1985 tók ég þátt í endurstofnun Félags íslenskra nuddara og var kjörinn ritari í fræðslunefnd þess félags og gegndi þeirri stöðu samfellt um árabil.

Ákveðinn aðdragandi var að því að ég tók þátt í þessari endurstofnun en hún var sú að Lóló sem hafði lært á nuddstofunni á Hótel Sögu, bauð mér starf sem nemi á nuddstofu sinni á Dunhaga í 107 Reykjavík á grundvelli viðurkenningarskjalsins í sænsku nuddi. Ég starfaði hjá henni yfir sumarið 1983 og leigði síðan nuddaðstöðu um haustið í kjallara við Háteigsveg í 105 Reykjavík.

Þá var fyrsta starfið sem mér var boðið eftir að ég hafði brautskráðst sem nuddfræðingur vorið 1985, hjá Kristjáni Jóhannessyni nuddara og eiganda að Gufubaðsstofu Jónasar á Seltjarnarnesi. Ég starfaði hjá honum í ágúst og september en stofnaði svo eigin nuddstofu í október sama ár. Það voru síðan þau tvö, Lóló og Kristján; sem báðu mig að koma að endurstofnuninni, sem ég og gerði. Mér var boðið að gerast formaður þess af nuddaranum Ólafi Þóri Jónssyni en ég færðist undan því.

Umsókn mín í Sjúkranuddarafélag Íslands var tekin fyrir á fundi um tveim mánuðum eftir að ég hafði lagt inn umsóknina. Hinn sami stjórnarmeðlimur hringdi í kjölfarið í mig og ég hafði rætt við haustið 1983 og bauð mér inngöngu. Heitir hann Vilhjálmur Ingi Árnason. Þegar hringingin barst þá var ég staddur við störf á hinni framangreindu nuddstofu minni að Lindargötu 11, 101 Reykjavík.

Vorið 1986 bauð ég til landsins nuddfræðingi frá sama skóla og ég hafði útskrifast frá en hann hét Richard Gaines og hafði bókað mig hjá honum í allnokkra einkatíma til að læra meira um nudd en í skyldukennslunni í skólanum en hann starfaði við nudd í gufubaðsstofu nálægt nuddskólanum í Boulder. Skipulagði ég fyrir hann námskeið fyrir meðlimi í Félagi íslenskra nuddara. Fylltist það af þátttakendum og lukkaðist vel.

Árið 1987 gekk löggilding í garð á stéttinni og ég sótti um í ágúst það ár. Í október sama ár gaf heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið út leyfi til að ég mætti starfa sem sjúkranuddari. Það er best að vitna beint í textann:
“Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherrann gjörir kunnugt:
Að ég samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 204/1987 um menntun, réttindi og skyldur sjúkranuddara sbr. lög nr. 24/1985 um starfsheiti og starfsréttindi veiti hér með
RAFNI GEIRDAL
f. 28. febrúar 1960, leyfi til þess að starfa sem sjúkranuddari hér á landi með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir að lögum.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið 14. október 1987.
F. h. r.
Ingimar Jónsson
Soffía Magnúsdóttir.
Leyfisbréf nr. 18 handa Rafni Geirdal, nnr. 7127-7518, til þess að starfa sem sjúkranuddari hér á landi.”

Sumarið 1987 hélt ég nuddnámskeið fyrir almenning í starfsaðstöðu Dale Carnegie námskeiðanna hér á landi við Sogaveg í Reykjavík. Sumarið 1988 stofnaði ég Nuddmiðstöðina og starfrækti hana í Dansstúdíó Sóleyjar við Engjateig í Reykjavík og bauð annars vegar upp á nudd og hins vegar nuddnámskeið. Vorið 1989 báðu þátttakendur á nuddnámskeiðum mig um að kenna sér nudd til fulls. Taldi ég best að þjóna þeirri beiðni með því að stofna nuddskóla.

Í þann 24. júní 1989 lögskráði ég fyrirtæki mitt Nuddskóla Rafns og flutti síðan starfsemina inn á 2. hæðina í Smiðshöfða 10, 110 Reykjavík en það svæði er kallað Ártúnshöfði. Fyrstu nemendur hófu nám þann 1. september það ár, 48 talsins.

Árið 1990 stofnaði ég svo Sjúkranuddstofu Rafns Geirdal og var með bæði nuddmeðferð og sjúkranudd samkvæmt læknistilvísun, milli þess sem ég var að kenna nuddnemendum nudd. Bætti ég einnig við mig að leigja 3. hæðina. Bæði starfsemin var í um 400 fermetra húsnæði.

Vorið 1991 útskrifaði ég fyrstu nuddnemendurna alls 28 og ákvað að útskriftarheiti væri nuddfræðingur og kæmi fram á viðurkenningarskjali þeim til handa.

Þann 20. ágúst 1992 stofnaði ég Félag íslenskra nuddfræðinga. Tilgangurinn var að hafa fagfélag utan um útskrifaða nuddfræðinga frá nuddskóla mínum. Var ég formaður fyrst um sinn. Vorið 1997 var varaformaðurinn svo gerður að formanni á aðalfundi, gjaldkerinn að varaformanni og ég að ritara. Á næsta aðalfundi á eftir var, sem haldinn var vorið 1998, var ég svo kjörinn sem formaður að nýju.

Ég þurfti síðan að flytja starfsemi mína í mars 2000 í nýja starfsaðstöðu á Hólmaslóð 4 á Granda í 101 Reykjavík. Þar starfaði ég til 11. apríl 2001.

Rétt er að geta þess að ég gerðist meðstofnandi á Félagi íslenskra sjúkranuddara haustið 1990 og var kjörinn ritari og var samfellt í þeirri stöðu síðan.

Vorið 2004 spurði Gauti Grétarsson sjúkraþjálfari hvort ég vildi ekki koma yfir til þeirra. Þegar hann spurði að þessu, þá var ég að æfa á fullu í Þrekhúsinu við KR völlinn í Reykjavík. Hann var þá staddur þar í þeim erindagjörðum að kenna leikfimi fyrir miðaldra karla í hádeginu.

Þegar komið var sumar samþykkti ég boðið. Hann bauð mér þá til fundar upp úr miðjum júlí það ár á starfsstofu sinni sem heitir Sjúkraþjálfun Reykjavíkur og var staðsett á 2. hæð í Héðinshúsinu að Seljavegi 2, 101 Reykjavík. Í kjölfarið útbjó hann svo plagg um að ég starfaði á starfsstofunni sem sjálfstætt starfandi sjúkranuddari. Minnir mig að það sé dagsett þann 19. júlí 2004 en í því var þess getið að fyrsti starfsdagur væri 1. ágúst sama ár.

Vorið 2008 flutti starfsstofan sig upp um eina hæð í stærri og betri aðstöðu og fékk ég þar herbergi fyrir mig en meðferð hafði farið mest fram í básum áður, sem stúkaðir höfðu verið af með tjöldum. Starfaði ég samfellt hjá Sjúkraþjálfun Reykjavíkur við nuddmeðferð og/eða sjúkranudd til 12. nóvember 2013 en Gauti var framkvæmdastjóri þeirrar starfsstofu.

Þann 12. desember sama ár gerði ég munnlegt samkomulag við Sjúkraþjálfunarstöðina í Þverholti 18, 2. hæð og hef starfað þar samfellt síðan við nuddmeðferð og/eða sjúkranudd.

Hafðu samband